könnunaraðferðin


Könnunaraðferðin er námsaðferð sem notuð er í Hulduheimum með börnum frá 3 ára aldri en tilgangur hennar er að skoða viðfangsefni ofan í kjölinn. Viðfangsefnin ráðast af áhuga barnanna og þeim þekkingarheimi sem þau búa við. Börnin útvíkka þekkingu og reynslu sína með umræðum og rannsóknum. Börnin eiga að læra með því að framkvæma hlutina sjálf, rannsaka, finna lausnir og leysa vandamál. Hlutverk kennarans er að styðja við og fylgjast með námi og þroska barnanna. Könnunaraðferðin æfir einnig félagslega færni barna  þ.e. að læra að gefa og þiggja, eiga vini, eiga samskipti við aðra og læra að skilja orsök og afleiðingar.  Börnin þurfa að læra að takast á við velgengni og mistök og geta greint frá tilfinningum sínum.  Verkefnavinnan skiptist í þrjá hluta sem tákna upphaf, miðju og endi.

1. hluti – upphaf

Áhugi á viðfangsefni getur vaknað við að skoða bók, vegna umræðu í samverustundum, upplifun í vettvangsferð eða öðru.  Þekkingarvefur um viðfangsefnið er búinn til, vinnuspurningar eru gerðar, umræða er í nemendahópnum og ef til vill fara upplýsingar heim til foreldra þar sem umræðan heldur áfram heima hjá barninu.

2. hluti – undirbúningur

Undirbúningur að vettvangsferðum og verkefnum hefst.  Farið í vettvangsferðir og unnið úr þeim (umræða, hlutir, bækur, myndir, sköpun).  Mögulega fáum við heimsóknir sérfræðinga eða förum í frekari vettvangsferðir. Vefurinn er uppfærður reglulega þegar ný þekking bætist við. Nemendur halda áfram að rannsaka.

3. hluti – Sýning og mat

Verkefni er lokið þegar öllum aðilum sem að verkefninu koma finnst þeir vera búnir að skoða viðfangsefnið eins vel og þeir vilja. Verkefni geta staðið mislengi yfir og stjórnast af áhuga á viðfangsefninu. Sýning miðlar náminu sem hefur átt sér stað.  Nemendur eru þátttakendur í skipulagningu sýningar og mati á því hvernig til tókst.  Niðurstaða síðasta verkefnis getur kveikt hugmynd að því næsta.