Stefna skólans


Hugmyndafræði og uppeldisleg sýn Hulduheima byggist á hugmyndafræði John Dewey  sem er leið til þess að hugsa um uppeldi, kennslu og tilgang leikskólastarfs.  Dewey vildi að samfélagið og skólinn ynni saman og hann taldi nauðsynlegt að samband væri milli raunverulegrar reynslu barnanna, náms og menntunar.  Hann taldi einnig mikilvægt að börnin þekktu fortíðina, þannig skildu þau nútíðina.

Dewey sá skólann fyrir sér sem samfélag þar sem lýðræði væri haft að leiðarljósi, þar sem ólíkir einstaklingar starfa saman og hver um sig leggur sitt af mörkum.  Reynsla, samfélagið og lýðræði eru að mati Dewey samofin í leikskólastarfinu.  Hlutverk leikskólans er að hafa í huga líf barnanna utan veggja skólans og byggja á þeirri reynslu sem börnin hafa þegar aflað sér og skapa nýja reynslu sem þau geta lært af.  Líf innan veggja leikskólans á að hjálpa barninu að lifa og starfa sem einstaklingur í samfélagi við aðra einstaklinga.  Dewey telur að börnum sé það meðfætt að læra, þess vegna eiga þau að vera virk í eigin námi.  Grunnhugmyndir uppeldisstefnu John Dewey byggjast á hugmyndum sem skýrast á einfaldan hátt í einkunnarorðunum:  learning by doing, að læra í athöfn og læra af egin reynslu.