Námsmat í Hulduheimum
Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla er meginmarkmið með mati á námi barna að auka þekkingu og skilning leikskólakennara og foreldra á þroska, námi og líðan barna. Upplýsingarnar sem fást úr námsmati eru notaðar til að styðja nám og velferð barna við skipulagningu leikskólastarfsins og í samstarfi við foreldra. Matið á að vera einstaklingsmiðað og sýna fram á hvernig barnið sýnir getu, þekkingu og hæfni. Við námsmat er jafnframt mikilvægt að skilja að börn eru ólík og þroskast á ólíkum hraða og að þau búa oft við ólíka menningu og fjölskyldugerðir. Kennarar þurfa að hafa trú á getu þeirra og tilhneigingu þeirra til að læra sem og að skapa þeim fjölbreytt námstækifæri.
Í námsmati er lögð áhersla á að fylgjast með alhliða þroska, sjálfstæði, áhugasviði, þátttöku í leik úti og inni, félagsfærni og samkennd, frumkvæði og sköpunarkrafti, tjáningu og samskiptum. Einnig eru námssvið leikskóla höfð til hliðsjónar en þau eru læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menning.
Leikur er meginnámsleið barna og þungamiðja leikskólastarfsins. Því fer námsmat eðlilega oft fram með þeim hætti að fylgjast með leik barnanna og skrá niður hvað þau eru að upplifa og tjá í leiknum. Skráningar geta verið m.a. í formi myndbanda, ljósmynda, ritaðra upplýsinga og merkinga í gátlista.
Starfsfólk Hulduheima fer ýmsar leiðir til að afla upplýsinga um þroska og nám barnanna. Þar er bæði um formlegt og óformlegt mat að ræða. Óformlega matið fer oft fram í umræðum starfsmanna á deildarfundum, samræðum við foreldra í foreldraviðtölum og í umræðum í samverustund með börnunum.
Hér eru tilgreindar þær formlegu leiðir sem farnar eru við námsmat, hvað er metið, hvernig og hver metur.
Leiðir við námsmat
Málþroski,tjáning og samskipti.
Hvernig: Orðaskil (3 ára) , TRAS (2-5 ára), HLJÓM-2 (elstu), AEPS (ef þarf), Art (elstu). Hæfnirammar í íslensku fyrir fjöltyngd börn, stigskipt.
Hver metur: Foreldrar(Orðaskil og Art), starfsfólk með réttindi fyrir TRAS, HLJÓM-2 og AEPS. Sérkennslustjóri í samstarfi við deildarstjóra og annað starfsfólk deilda metur íslenskunám með hæfnirömmunum.
Hreyfiþroski
Hvernig: Heimatilbúnir matslistar eru til ef þurfa þykir, AEPS (ef þarf), Íslenski þroskalistinn (3-6 ára), ef þarf. Íslenski smábarnalistinn(15-38.mán), ef þarf.
Hver metur: Kennarar á deildum. Starfsfólk með réttindi. Móðir svarar Íslenska þroskalistanum og Smábarnalistanum
Félagsfærni og samkennd.
Hvernig: TRAS, atferlisathuganir, skráningar í könnunarleik. Matslistar Art (elstu), AEPS (ef þarf)
Hver metur: Mat eftir Art: foreldrar-börn. Kennarar á deildum. Starfsfólk með réttindi.
Sjálfstæði
Hvernig: Matslistar í könnunaraðferð, atferlisathuganir, skráningar í könnunarleik, Íslenski þroskalistinn (ef þarf), Íslenski smábarnalistinn (ef þarf), AEPS(ef þarf)
Hver metur: Börn, kennarar á deildum. Móðir svarar Íslenska þroskalistanum og Smábarnalistanum. Starfsfólk með réttindi.
Áhugasvið og líðan
Hvernig: Könnunaraðferð, broskarlamat, atferlisathuganir, leikskráningar, foreldraviðtöl.
Hver metur: Börn, kennarar á deildum, foreldrar.
Þátttaka og nám í leik úti og inni
Hvernig: Skráningar í könnunarleik, könnunaraðferð og frjálsum leik.
Hver metur: Kennarar á deildum.
Frumkvæði og sköpunarkraftur
Hvernig: Matslistar í könnunaraðferð, atferlisathuganir, skráningar í könnunarleik og frjálsum leik.
Hver metur: Börn, kennarar á deildum.