Almennar upplýsingar
Þegar börnin eiga afmæli fá þau að búa til sína afmæliskórónu og fá þau forréttindi að velja ýmislegt eins og söngva og leiki í samverustundum. Þau velja sér disk og glas úr afmæliskistunni til að nota í matmálstíma og afmælissöngurinn er sunginn fyrir þau. Ekki er leyfilegt að koma með veitingar að heiman til að bjóða upp á í leikskólanum.
Lyf eru almennt ekki gefin af starfsfólki leikskólans. Á þessu gætu verið sérstakar undantekningar en asthma púst hafa verið gefin sé þess þörf. Þegar um bráðaofnæmi er að ræða er æskilegt að foreldri afhendi deildarstjóra Epi- penna fyrir neyðartilvik.
Sótt er um leikskólapláss á vefnum Mín Árborg. Aðalúthlutunartíminn er á vorin og er þá úthlutað fyrir haustið.
Leikskólinn er opinn frá 7:45-16:30 og hægt er að velja um vistunartíma allt frá fjórum stundum upp í fulla vistun. Virða skal umsaminn vistunartíma. Ef foreldrar óska eftir breytingu á vistunartíma má nálgast eyðublöð á viðkomandi deild sem berst svo til leikskólastjóra til samþykktar. Sækja þarf um breytingar fyrir 15. hvers mánaðar.
Uppsögn á leikskólaplássi skal berast til leikskólastjóra með mánaðarfyrirvara.
Ekki er æskilegt að börn komi veik eða slöpp í leikskólann. Í leikskólanum getur verið mikið áreiti svo að mikilvægt er að börnin séu fullfrísk og tilbúin til að takast á við daginn. Tilkynna skal veikindi barna með því að hringja í viðkomandi deild eða skrá fjarveru í Völu.
Börn eru send heim ef þau eru komin með hita en einnig ef þau eru augljóslega slöpp og ekki að una sér í leik eða starfi.
Æskilegt er að börn séu heima hitalaus í einn dag eftir hitaveikindi.
Ekki er í boði að vera inni til þess að fyrirbyggja veikindi en hægt er að semja um að börnin fái styttri útiveru eftir veikindi.