Vinátta

Vinátta er forvarnarverkefni Barnaheilla sem er ætlað að stuðla að jákvæðum samskiptum og koma í veg fyrir einelti. Vinátta hefur verið í innleiðingu í Hulduheimum síðan í janúar 2022. Gert er ráð fyrir að innleiðingarferli sem þetta taki 3-5 ár.

Vinátta byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem mikilvægt er að séu samofin öðru starfi þeirra skóla sem vinna með efnið. Auk þess byggir Vinátta á raunhæfum verkefnum fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þátttaka allra í þessu er grundvöllur þess að vel takist til. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi við vinnu og í samskiptum innan skólasamfélagsins. Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirtöldum fjórum gildum; umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki.

Stjórnendateymi Hulduheima hefur útbúið viðbragðsáætlun við grun um einelti í barnahópnum. Hana má sjá hér Viðbragðsáætlun við einelti

Blær

Blær er bangsi sem fylgir Vináttuverkefninu. Með kennsluefninu kemur stór Blæ handbrúða og börnin fá öll lítinn Blæ bangsa sem þau mega sækja í á meðan þau eru í leikskólanum. Að minnsta kosti einu sinni í viku eru samverustundir með Blæ.