Foreldrastarf í Hulduheimum

Áherslur Hulduheima í foreldrasamstarfi.

Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) er mikil áhersla lögð á að fjölskyldan og leikskólinn séu samstarfsaðilar og vinna saman með velferð barnsins að leiðarljósi. Í upphafi skólagöngu er grunnur lagður að þessu samstarfi sem þarf að einkennast af trausti, gagnkvæmum skilningi og virðingu fyrir viðhorfum og þekkingu hverra annarra sem og ólíkri og menningu og fjölbreyttum fjölskyldugerðum. Leikskólar Árborgar vinna samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (2021). Starfsfólki ber að fylgjast vel með velferð leikskólabarna og grípa inn í ef áhyggjur vakna hjá þeim eða foreldrum. Ef þurfa þykir geta foreldrar eða stjórnendur óskað eftir samþættri þjónustu sem þýðir að öll “kerfi” (leikskóli, heilsugæsla, félagsþjónusta osfrv) sem koma að barninu mega hafa samráð. Tengiliður leikskólans við samþætta þjónustu er sérkennslustjóri.

Í stefnu Hulduheima (2008) sem er byggð á hugmyndafræði John Dewey, segir; “Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi barna sinna og eru virkir þátttakendur í uppeldi barnsins heima og að heiman. Þess vegna gera foreldrar og leikskóli með sér sáttmála um nám og uppeldi barnsins í leikskólanum. Við upphaf leikskólagöngunnar skýra foreldrar frá þeirri reynslu sem börnin hafa þegar fengið og kennarar leikskólans geta þar af leiðandi byggt ofan á þá reynslu. Á meðan á leikskóladvöl barnsins stendur gefa foreldrar og kennarar leikskólans hvert öðru upplýsingar um reynslu barnsins, þannig að það myndast samfella í námi þess, samfella milli heimilis og leikskóla og umhverfisins”.

Mikilvægt er að leikskólinn gefi sem bestar upplýsingar um nám og framfarir barnsins í leikskólanum og að foreldrar séu upplýstir um starfsaðferðir og leiðir sem farnar eru til að efla þroska barna þeirra.

Starfsfólk hefur útbúið sér samskiptasáttmála (2023) sem á að gilda þeirra í milli en einnig í leikskólasamfélaginu öllu, þar með talið í foreldrasamstarfi. Gildi sáttmálans eru; Virðing, Jákvæðni, Traust, Umhyggja, Umburðarlyndi og Hugrekki.

Í handbók um Fjölmenningarlega menntun í Sveitarfélaginu Árborg er kafli um mótttökuferli í leikskólum vegna nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn og ber deildarstjórum að hafa handbókina til hliðsjónar við mótttöku þeirra. Samráð skal haft við foreldra varðandi þörf á túlkaþjónustu og þýðingu á helstu upplýsingum varðandi leikskólastarfið.

Leitast er eftir viðhorfum foreldra með innra mati (aðallega skoðanakönnunum), daglegum samskiptum, í foreldrasamtölum og með samvinnu við foreldraráð leikskólans.

Foreldraráð:

Samkvæmt lögum um leikskóla skal kjósa foreldraráð við leikskólann. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur en hlutverk þess er að gefa umsagnir til leikskóla um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.

Foreldrafélag:

Við leikskóla ætti einnig að starfa foreldrafélag. Hlutverk og verkefni foreldrafélagsins er m.a. að:

  • Vera samstarfsvettvangur foreldra og leikskóla.
  • Stuðla að góðum skólaanda með því að standa fyrir ýmsum uppákomum og viðburðum í samstarfi við leikskólann.
  • Stuðla að auknum kynnum barna, foreldra og starfsmanna skólans.
  • Koma á umræðu- og fræðslufundum fyrir foreldra um uppeldis- og leikskólamál.

Félagsgjald er 2500 kr á fjölskyldu og munu greiðsluseðlar birtast í heimabanka.

Foreldraráð og foreldrafélag fundar reglulega með leikskólastjóra.

Foreldrar eru hvattir til að vera ófeimnir við að hafa samband við stjórn félagsins, netfang félagsins er:

foreldrarhulduheima@gmail.com

 

Stjórn foreldrafélags og foreldraráðs veturinn 2023-2024

Stjórn foreldraráðs:

Hugrún Helgadóttir

Anna Björnsdóttir

Fanney Sigmarsdóttir

Stjórn foreldrafélags:

Guðmunda Ólafsdóttir

Sveinn Tjörvi Viðarsson

Guðlaug Stella Hafsteinsdóttir