Hugmyndafræði og uppeldisleg sýn
Dewey vildi að samfélagið og skólinn ynni saman og hann taldi nauðsynlegt að samband væri milli raunverulegrar reynslu barnanna, náms og menntunar. Hann taldi einnig mikilvægt að börnin þekktu fortíðina, þannig skildu þau nútíðina.
Hugmyndafræði og uppeldisleg sýn leikskólans Hulduheima byggist á hugmyndafræði John Dewey sem er leið til þess að hugsa um uppeldi, kennslu og tilgang leikskólastarfs. Dewey vildi að samfélagið og skólinn ynni saman og hann taldi nauðsynlegt að samband væri milli raunverulegrar reynslu barnanna, náms og menntunar. Hann taldi einnig mikilvægt að börnin þekktu fortíðina, þannig myndu þau skilja nútíðina. Dewey sá skólann fyrir sér sem samfélag þar sem lýðræði væri haft að leiðarljósi, þar sem ólíkir einstaklingar starfa saman og hver um sig leggur sitt að mörkum. Reynsla, samfélagið og lýðræði eru að mati Dewey samofin í leikskólastarfinu. Hlutverk leikskólans er að hafa í huga líf barnanna utan veggja leikskólans og byggja á þeirri reynslu sem börnin hafa þegar aflað sér og skapa nýja reynslu sem þau geta lært af. Líf innan veggja leikskólans á að hjálpa barninu að lifa og starfa sem einstaklingur í samfélagi við aðra einstaklinga. Dewey telur að börnum sé það meðfætt að læra, þess vegna eiga þau að vera virk í eigin námi. Grunnhugmyndir uppeldisstefnu John Dewey byggjast á hugmyndum sem skýrast á einfaldan hátt í einkunnarorðunum: learning by doing, að læra í athöfn og að læra af eigin reynslu.
Menntun og reynsla
Dewey taldi að börn öðluðust einungis raunhæfa menntun í gegnum reynslu sína. Nám barna er samfélagsmiðað, þar sem barnið lærir í samskiptum við aðra einstaklinga. Dewey lagði áherslu á samfellu í námi barna þar sem námsgreinar, bóknám og verknám er fellt saman í eina heild og litið er á námsferlið allt sem menntandi reynslu
Menntun og samfélag
Leikskólinn á að kynna fyrir barninu frumþætti samfélagsins og þjálfa það í að vera þátttakandi í samfélagi fólks. Líf innan veggja leikskólans á að hjálpa barninu að taka þátt í og starfa í samfélaginu núna og í framtíðinni. Dewey taldi að mannasiðir, góð hegðun sem og kurteisi og siðprýði, virðing fyrir ólíkum siðum og hefðum þjóða og heimila, aðlögun og tillitssemi væru mikilvægir þættir í samskiptum fólks.
Menntun og lýðræði
Virðing er undirstaða lýðræðis. Virðing fyrir sjálfum sér og öðrum. Virðing felst m.a. í sanngirni, umhyggju, víðsýni og umburðarlyndi. Samhliða lýðræði og lifsleikni er stuðlað að sjálfræði og sjálfshjálp barnanna. Dewey taldi að fólk menntaðist með því að vinna saman og nauðsynlegt sé að hver og einn leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Dewey álítur að menntun sé það sem hver og einn upplifir hér og nú.
Hugmyndafræðin í notkun.
Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi barna sinna og eru virkir þátttakendur í uppeldi barnsins heima og að heiman. Þess vegna gera foreldrar og leikskóli með sér sáttmála um nám og uppeldi barnsins í leikskólanum. Við upphaf leikskólagöngunnar skýra foreldrar frá þeirri reynslu sem börnin hafa þegar fengið og kennarar leikskólans geta þar af leiðandi byggt ofan á þá reynslu. Á meðan á leikskóladvöl barnsins stendur gefa foreldrar og kennarar leikskólans hvert öðru upplýsingar um reynslu barnsins, þannig að það myndast samfella í námi þess, samfella milli heimilis og leikskóla og umhverfisins.
Nám barnanna er einstaklingsmiðað. Unnið er með sjálfshjálp, félagsfærni og skilning á þörfum einstaklinganna innan leikskólans þannig að samfella myndist í reynslu þeirra og menntun. Kennarinn mætir börnunum á lýðræðis og jafnréttisgrundvelli. Hann er til staðar fyrir börnin í leik og veitir viðeigandi stuðning þar sem við á. Hlutverk hans er að styðja og styrkja börnin í að taka sjálfstæðar ákvarðanir, skilja sjónarmið annarra og hvetja þau til sjálfshjálpar auk þess að styðja börnin í að leysa deilur og ágreiningsmál á friðsamlegan hátt. Börnin eru þjálfuð í gagnrýnni hugsun með það fyrir augum að þau geti orðið þjóðfélagsþegnar í lýðræðissamfélagi. Stuðlað er að umburðarlyndi í samskiptum barnanna og í samneyti þeirra við aðra. Börnin læra að orð og gjörðir þeirra skipta máli og geta haft áhrif á líf og líðan þeirra sem ásamt þeim lifa og starfa í samfélaginu. Það stuðlar að því að þau verði öflugir einstaklingar sem leysa vandamál líðandi stundar, horfa fram í tímann, þekkja fortíðina og takast óhræddir á við framtíðina, líta á hana sem spennandi og ögrandi viðfangsefni gagnrýnnar hugsunar.
Dewey bendir á að leikskólinn sé ekki undirbúningur undir lífið, hann bendir á að leikskólinn sé lífið. Að klæða sig úr og í og skilja áhrif veðurfars á klæðnað fólks, að styrkja hreinlætisvenjur, að styrkja félagsvitund barna með samhjálp og að börnin læri að meta gildi samvinnu. Taka þarf tillit til þarfa barnanna, samspil á milli barnsins og aga og þess sem skynsamlegt er. Þar má nefna matartíma, matarvenjur, reglur, siði og hefðir.
Börnin fá að kynnast náttúrunni og umhverfi leikskólans, það stuðlar að því að þau koma auga á það sem er að gerast í nánasta umhverfi þeirra. Þannig eflist áhugi barnanna á félagslegu og menningarlegu umhverfi þeirra. Tengsl þeirra við heimabyggðina styrkist, það stuðlar að því að þau verði vakandi og virk fyrir fjölbreytileika umhverfisins. Kennarar líta á umhverfið sem spennandi rannsóknarverkefni fyrir börnin. er gefið tækifæri til að rannsaka og skoða umhverfi sitt og vinna úr upplifunum sínum á markvissan hátt innan leikskólastarfsins. Þau fá tækifæri til að læra á og þekkja umhverfi sitt, sögu, náttúru, fyrirtæki og annað sem einkennir umhverfi leikskólans.
Við lok leikskólagöngu er grunnskóla veittar upplýsingar um barnið til þess að hægt sé að byggja á fyrra námi þeirra í leikskólanum.