Stefna Hulduheima

Leikskólinn starfar í ljósi hugmyndafræði John Dewey. Grunnhugmyndir uppeldisstefnu John Dewey byggjast á hugmyndum sem er lýst á einfaldan hátt í einkunnarorðunum ,,learning by doing“, að læra í athöfn eða að læra af eigin reynslu.

Einkunnarorð og áherslur leikskólans
Virðing- lýðræði- samfélag.
Lögð er áhersla á að efla virðingu fyrir einstaklingnum, sjálfshjálp, félagsfærni og snemmtæka íhlutun.

Megin kennsluaðferð leikskólans- könnunaraðferðin
Könnunaraðferðin (e.project approach) er námsaðferð sem er notuð með börnum frá 3 ára aldri en tilgangur hennar er að skoða viðfangsefni ofan í kjölinn. Viðfangsefnin ráðast af áhuga barnanna og þeim þekkingarheimi sem þau búa við. Börnin víkka út þekkingu og reynslu sína með umræðum og rannsóknum. Hlutverk kennarans er að styðja við börnin í þekkingarleitinni, efla félagshæfni þeirra og tengja námið saman við námssvið leikskólans (skv. Aðalnámskrá).

Verkefnavinna Könnunaraðferðarinnar- Þrír hlutar

1. hluti – upphaf
Áhugi á viðfangsefni getur vaknað við að skoða bók, vegna umræðu í samverustundum, upplifun í vettvangsferð eða öðru. Þekkingarvefur um viðfangsefnið er búinn til, vinnuspurningar eru gerðar, umræða er í nemendahópnum og ef til vill fara upplýsingar heim til foreldra þar sem umræðan heldur áfram heima hjá barninu.
2. hluti – undirbúningur
Undirbúningur að vettvangsferðum og verkefnum hefst. Farið í vettvangsferðir og unnið úr þeim (umræða, hlutir, bækur, myndir, sköpun). Mögulega fáum við heimsóknir sérfræðinga eða förum í frekari vettvangsferðir. Vefurinn er uppfærður reglulega þegar ný þekking bætist við. Nemendur halda áfram að rannsaka.
3. hluti – Sýning og mat
Verkefni er lokið þegar öllum aðilum sem að verkefninu koma finnst þeir vera búnir að skoða viðfangsefnið eins vel og þeir vilja. Verkefni geta staðið mislengi yfir og stjórnast af áhuga á viðfangsefninu. Sýning miðlar náminu sem hefur átt sér stað. Nemendur eru þátttakendur í skipulagningu sýningar og mati á því hvernig til tókst. Niðurstaða síðasta verkefnis getur kveikt hugmynd að því næsta.

Kennsluaðferðir - könnunaraðferðin

Könnunaraðferðin æfir félagslega færni barna en félagsfærnin gengur m.a. út á að læra að gefa og þiggja, eiga vini, eiga samskipti við aðra og læra að skilja orsök og afleiðingar. Börnin þurfa að læra að takast á við velgengni og mistök og geta greint frá tilfinningum sínu. Verkefnavinnan skiptist í þrjá hluta sem tákna upphaf, miðju og endi

Börnin fá að kynnast náttúrunni og umhverfi leikskólans, það stuðlar að því að þau koma auga á það sem er að gerast í nánasta umhverfi þeirra. Þannig eflist áhugi barnanna á félagslegu og menningarlegu umhverfi þeirra. Tengsl þeirra við heimabyggðina styrkist, það stuðlar að því að þau verði vakandi og virk fyrir fjölbreytileika umhverfisins. Börnin eru þjálfuð í gagnrýnni hugsun með það fyrir augum að þau geti orðið þjóðfélagsþegnar í lýðræðissamfélagi. Stuðlað er að umburðarlyndi í samskiptum barnanna og í samneyti þeirra við aðra. Börnin læra að orð og gjörðir þeirra skipta máli og geta haft áhrif á líf og líðan þeirra sem ásamt þeim lifa og starfa í samfélaginu. Það stuðlar að því að þau verði öflugir einstaklingar sem leysa vandamál líðandi stundar, horfa fram í tímann, þekkja fortíðina og takast óhræddir á við framtíðina, líta á hana sem spennandi og ögrandi viðfangsefni gagnrýnnar hugsunar.

Dewey bendir á að leikskólinn sé ekki  undirbúningur undir lífið, hann bendir á að leikskólinn sé lífið. Mikilvægt er að hvetja barnið til sjálfshjálpar og að barnið taki þátt í daglegum verkum sem hæfa þroska þess, til dæmis að hjálpa til við undirbúning máltíðar og við frágang að máltíð lokinni. Að klæða sig úr og í og skilja áhrif veðurfars á klæðnað fólks, að styrkja hreinlætisvenjur, að styrkja félagsvitund barna með samhjálp og að börnin læri að meta gildi samvinnu. Taka þarf tillit til þarfa barnanna, samspil á milli barnsins og aga og þess sem skynsamlegt er. Þar má nefna matartíma, matarvenjur, reglur, siði og hefðir.

Könnunarleikur

Könnunarleikur nefnist á ensku “Heuristic Play with Objects”. “Heuristic” er að uppruna gríska orðið “eurisko” sem þýðir að uppgötva eða öðlast skilning á. Þessi merking lýsir ákvæmlega því sem börnin eru að gera í þessum leik. Með því að nota þetta óvenjulega orð er vakin athygli á því hve leikur barnanna er merkilegur og mikil reisn yfir honum. Börnin starfa af eigin hvötum ef þau fá viðeigandi hluti sjálf og fyrir sig sjálf, án þess að fullorðnir stýri þeim.
Hlutirnir sem börnin fá í könnunarleik eru ekki venjuleg plastleikföng úr búð. Þetta eru alls konar hversdagslegir hlutir og ílát s.s. stórar dósir, kökubox, öskjur úr pappa eða tré, þvottaklemmur úr tré , ullardúskar, rör og pappahólkar, könglar, skeljar og margt, margt fleira. Það er ekki nýtt að börn leiki sér með það sem við köllum verðlaust efni en hér er á ferðinni sérstök útfærsla á því að nálgast efniviðinn með ákveðinn tilgang í huga.
Hinn fullorðni stýrir ekki leiknum, en lykilatriði í könnunarleikjastund er að hann sé til staðar og með vakandi áhuga. Leikur sem barnið stjórnar sjálft felur í sér eigin umbun, þar sem hrós og athugasemdir eru óþarfar.
Könnunarleikjastund getur staðið í allt að 45 mínútur en þriðjung af tímanum þarf að nota til að taka saman. Tíminn, sem fer í tiltekt, er jafn mikilvægur tímanum sem fer í leik og er í raun framlenging á leiknum. Á meðan á leiknum stendur talar hinn fullorðni ekkert en í tiltektinni nefnir hann hlutina sem hann vill að barnið setji í hvern poka, og notar þá hugtök eins og hringur, keila, lítill, stór, ýmis litaheiti, fyrir aftan, fyrir framan, undir, bakvið o.s.frv. Þessar stundir eru í miklu uppáhaldi hjá mörgum, nemendum sem og kennurum!