Almennar upplýsingar
Þegar börnin eiga afmæli fá þau að búa til sína afmæliskórónu og fá þau forréttindi að velja ýmislegt eins og söngva og leiki í samverustundum. Þau velja sér disk og glas úr afmæliskistunni til að nota í matmálstíma og afmælissöngurinn er sunginn fyrir þau. Ekki er leyfilegt að koma með veitingar að heiman til að bjóða upp á í leikskólanum.
Lyf eru almennt ekki gefin af starfsfólki leikskólans. Á þessu gætu verið sérstakar undantekningar en asthma púst hafa verið gefin sé þess þörf. Þegar um bráðaofnæmi er að ræða er æskilegt að foreldri afhendi deildarstjóra Epi- penna fyrir neyðartilvik.
Sótt er um leikskólapláss á vefnum Mín Árborg. Aðalúthlutunartíminn er á vorin og er þá úthlutað fyrir haustið.
Leikskólinn er opinn frá 7:45-16:15 og hægt er að velja um vistunartíma allt frá fjórum stundum upp í fulla vistun. Virða skal umsaminn vistunartíma, ef farið er fram yfir vistunartímann geta foreldrar átt von á gjaldtöku. Ef foreldrar óska eftir breytingu á vistunartíma má nálgast eyðublöð á viðkomandi deild sem berst svo til leikskólastjóra til samþykktar en mælst er til þess að óskir um breytingar fari í gegnum Mín Árborg. Sækja þarf um breytingar fyrir 15. hvers mánaðar.
Uppsögn á leikskólaplássi skal berast til leikskólastjóra með mánaðarfyrirvara.
Ekki er æskilegt að börn komi veik eða slöpp í leikskólann. Í leikskólanum getur verið mikið áreiti svo að mikilvægt er að börnin séu fullfrísk og tilbúin til að takast á við daginn. Tilkynna skal veikindi barna með því að hringja í viðkomandi deild eða skrá fjarveru í Völu.
Börn eru send heim ef þau eru komin með hita en einnig ef þau eru augljóslega slöpp og ekki að una sér í leik eða starfi.
Æskilegt er að börn séu heima hitalaus í einn dag eftir hitaveikindi.
Ekki er í boði að vera inni til þess að fyrirbyggja veikindi en hægt er að semja um að börnin fái styttri útiveru eftir veikindi.
Þegar barn hefur leikskólagöngu sína er mikilvægt að vanda vel við aðlögun að leikskólanum. Notast er við sérstaka áætlun en hana þarf að einstaklingsmiða að þörfum hvers og eins.
Aðlögunaráætlun:
Dagur 1. Heimsókn með foreldrum kl 10. Leikskólinn og deildin skoðuð. Heimsóknin tekur 30-60 mín.
Dagur 2. Barnið mætir milli kl 9:30-11. Útivera. Foreldrar eru með en skreppa aðeins frá í stutta stund.
Dagur3. Barnið mætir á sínum tíma og borðar morgunmat (þau sem eiga vistun frá 8:00). Barnið er í leikskólanum til kl:11:15. Foreldrar fara frá í ca. klst.
Dagur 4. Barnið mætir á sínum tíma. Foreldrar eru með barninu til að byrja með. Barnið borðar hádegisverð og fer í hvíld. Starfsmaður hringir þegar barnið vaknar og það er þá sótt.
Dagur 5. Barnið dvelur mest allan vistunartímann, er sótt snemma.
Dagur 6. Barnið dvelur í leikskólanum allan sinn tíma án foreldra (aðlögun gæti lengst ef þurfa þykir).
Atriði sem má hafa í huga:
- Börnin koma með bleiur í leikskólann og geyma þær í sínu hólfi inn á klósetti (ath vinsamlegast EKKi buxnableiur)
- Ef börn nota snuð þá er gott að geyma eitt í leikskólanum og eiga svo bara annað heima. Muna að merkja snuðið.
- Börnin mega hafa með sér bangsa að heiman til að nota í hvíldinni (en börnin fá bangsann Blæ í leikskólanum og börnin geta líka hvílst með hann).
- Börnin þurfa að hafa með sér aukaföt. Þau eru svo geymd í hólfinu þeirra.
- Útiföt verða alltaf að vera með því börnin fara út alla daga. Gott er að hafa með þykka peysu, þykka sokka, tvenna vettlinga, húfu, pollagalla, kuldagalla, stígvél, huldaskó og strigaskó. (Árstíðarbundið) Veðrið breytist hratt og þá er gott að vera vel búin.
- Muna að merkja föt og skófatnað barnanna. Ýmis fyrirtæki sérhæfa sig í merkingum á fatnaði.
- Börnin þurfa ekki að vera með töskur í leikskólanum, útifötin eru sett í hólf og á snaga á mánudegi og svo tekin heim á föstudegi.