Bættar aðstæður til náms og skynjunar á útilóð

Kom barnið þitt heim með drulluskítug föt? Það þýðir að barnið var að njóta sín í leik og starfi!

Það hefur verið markmið okkar um nokkurn tíma að bæta aðstæður til náms og skynjunar á lóðinni okkar hér í Hulduheimum en með því erum við að gera umbætur samkvæmt innra og ytra mati þar sem kom fram að við mættum gera betur í að gera ráð fyrir ólíkum viðfangsefnum og þörfum barna á útisvæði. Eitt að því sem okkur dreymdi um var að smíða útieldhús og undanfarna daga og vikur höfum við verið að koma því í framkvæmd. Við höfum einnig unnið að því að gera betra aðgengi að mold til leiks og ræktunar. Í gegnum leik í mold og drullu fá börnin fleiri tækifæri til að nýta skynfæri sín, efla hreyfingu, skynjun og sköpunargáfuna ásamt því að þjálfa samskipti í hlutverkaleik. Eins og myndirnar gefa til kynna tóku börnin virkan þátt í vinnunni. Margar hendur vinna létt verk!